Sinadráttur

Sinadráttur er vöðvakrampi í fótum sem á sér yfirleitt stað í kálfavöðvum en getur einnig átt sér stað í lærum og iljum. Þetta gerist ekki ósjaldan að nóttu til og getur komið fyrir hjá fólki á öllum aldri þó svo eldra fólk finni gjarnan meira fyrir þessum kvilla.

Orsakir sinadráttar eru yfirleitt skortur á magnesíum eða ójafnvægi á kalki og magnesíum í líkamanum og/eða skortur á E-vítamíni. Blóðleysi, reykingar, hreyfingarleysi, vefjagigt, liðagigt og jafnvel kransæðastífla geta einnig stuðlað að sinadrætti. Þá getur ofþornun, sólstingur, ofvirkur skjaldkirtill eða æðahnútar komið af stað sinadrætti. Notkun á lyfjum gegn of háum blóðþrýstingi eða hjartasjúkdómum (sem hafa oft þvagdrífandi áhrif) getur leitt til ójafnvægis í söltum í líkamanum sem síðan getur valdið vöðvakrampa. Lélegt blóðstreymi er einnig sterkur þáttur í vöðvaóþægindum og getur stuðlað að sinadrætti.

Hvað er til ráða?

Mikilvægast er að hreyfa vöðvana reglulega og getur lítil hreyfing oft verið nóg!! Gott er að nudda vöðvana með hreinni, grænni ólífuolíu (jómfrúar) eða línolíu eftir áreynslu. Einnig eru til sérstakar vöðvaolíur með hitagefandi kjarnaolíum sem örva blóðstreymi.

Borðið magnesíumríkar fæðutegundir eins og flestar algengar hnetutegundir, möndlur, avókadó, þurrkaðar apríkósur, maís og maísmjöl, hveiti, rúgur, bókhveiti, hveitikím, hveitiklíð, linsur, sojabaunir og afurðir úr þeim, mólassi, hafragrjón, sesamfræ og síðast en ekki síst söl. Einnig alfalfa, ölger og mikið af grænu grænmeti og salati (káli). Alfalfa, ölger og þari eru til á bætiefnaformi.

Drekkið vatn reglulega til að hreinsa burt eiturefni sem vilja safnast fyrir í vöðvunum. Gott er að drekka vatnsglas á um 3ja tíma fresti. Ef verið að taka lyf við of háum blóðþrýstingi eða hjartasjúkdómum er nauðsynlegt að taka inn kalíum. Þar sem þessi lyf eru mjög þvagdrífandi tapast kalíum auðveldlega úr líkamanum og getur valdið ójafnvægi á steinefnabirgðum hans.

Komi sinadrátturinn oftar fyrir á nóttunni er gott að fara í heitt bað fyrir svefninn og þá gjarnan með annað hvort olíu eða baðsalti út í. Komi sinadrátturinn frekar fyrir á daginn og þá jafnvel á meðan hreyfingu stendur er vert að fara til læknis þar sem þetta getur verið merki um lélegt blóðstreymi og jafnvel hjartasjúkdóma.

Bætiefni

Kalk og magnesíum eru mikilvægustu steinefnin fyrir fólk sem fær sinadrætti. Mikilvægt er að taka þau í réttum hlutföllum, þ.e.a.s. helmingi meira af kalki en magnesíum (2:1). Mælt er með 1500 mg af kalki og 750 mg af magnesíum á dag.

E-vítamín er mikilvægt fyrir æðakerfið og getur hjálpað lélegu blóðstreymi. Það hentar sérstaklega þeim sem eru með æðahnúta.

Kalíum er nauðsynlegt til að viðhalda réttu jafnvægi á efnaskiptum steinefna í líkamanum. Mælt er með 100 mg á dag.

C-vítamín hefur lengi verið þekkt fyrir virkni sína fyrir ónæmiskerfið en það hjálpar einnig blóðstreyminu og mælt er með 1-2000 mg á dag 1-2 vikur á meðan unnið er gegn sinadrættinum.

D-vítamín er nauðsynlegt fyrir líkamann til að geta nýtt kalk að fullu. Mælt er með 400 ae (alþjóðaeiningar) á dag. Lýsi er góður kostur sem D-vítamín gjafi.

Jurtir sem hjálpa

Til eru ýmsar góðar jurtir fyrir blóðstreymið. Þar á meðal eru: alfalfa, dong quai og alveg sérstaklega ginkgo biloba. Einnig getur sumum reynst vel að drekka róandi te fyrir svefninn sem yfirleitt inniheldur kamillu og aðrar slakandi jurtir.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.